Enski boltinn

Gerrard biður stuðningsmenn Liverpool um að sýna þolinmæði

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Steven Gerrard.
Steven Gerrard. Mynd/Nordic Photos/Getty
Steven Gerrard, fyrirliði Liverpool, biðlaði til stuðningsmanna liðsins um að sýna þolinmæði á meðan að Liverpool-liðið reynir að snúa við skelfilegu gengi liðsins að undanförnu. Liverpool hefur tapað sex af síðustu sjö leikjum sínum í ensku úrvalsdeildinni.

„Það eru krefjandi verkefni framundan hjá okkur og ég vil biðja stuðningsmenn okkar um að sýna þolinmæði. Við munum snúa þessu við," sagði Steven Gerrard við heimasíðu Liverpool.

„Við áttum sveiflukenndan marsmánuð og erum ekki ánægðir með stöðu okkar í deildinni. Við þurfum að horfa í eigin barm og reyna að komast upp töfluna sem fljótt og mögulegt er," sagði Gerrard.

Gerrard skoraði þrennu í eina sigri Liverpool í mars og var kosinn besti leikmaður Liverpool í marsmánuði. Þrennan hans kom á móti nágrönnunum í Everton.

„Everton-leikurinn var augljóslega hápunkturinn fyrir mig í mars. Það var góð frammistaða hjá öllu liðinu en fyrir utan þann leik voru ekki margir hápunktar í mánuðinum. Vonandi tekst okkur að breyta því í apríl með því að komast upp töfluna og alla leið í bikarúrslitaleikinn," sagði Gerrard.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×