Innlent

Áhyggjuefni að færri feður fari í fæðingarorlof

Guðbjartur Hannesson, velferðarráðherra.
Guðbjartur Hannesson, velferðarráðherra.
Velferðarráðherra segir það áhyggjuefni að feðrum sem taka fæðingarorlof fari fækkandi. Verið sé að skoða að hækka aftur hámarksgreiðslur Fæðingarorlofssjóðs til að bregðast við þessu.

Nýjar tölur frá Fæðingaorlofssjóði sýna að feðrum sem taka fæðingarorlof heldur áfram að fækka en á milli áranna 2010 og 2011 fækkaði þeim um 10%. Á sama tíma fækkaði mæðrum sem tóku fæðingarorlof um 5%. Vert er að hafa í huga að fæðingum fækkaði nokkuð á þessu tímabili en engu að síður fækkaði þeim feðrum sem tóku fæðingarorlof hlutfallslega mun meira en mæðrum.

Forstöðumaður Fæðingarorlofssjóðs segir marga feður ekki hafa tök á því að fara í fæðingarorlof eftir að hámarksgreiðslur sjóðsins voru lækkaðar.

Þær voru hæstar 535 þúsund krónur í lok árs 2008 í upphafi árs 2010 voru þær orðnar 300 þúsund krónur.

Guðbjartur Hannesson, velferðarráðherra, segir áhyggjuefni að feðrum sem taka fæðingarorlof sé að fækka.

„Það er náttúrulega klár öfug þróun ef að karlmenn taka ekki fæðingarorlof í svipuðu mæli og ætlast var til í byrjun, en sú þróun var öll í rétta átt og karlmenn voru farnir að taka sinn þriðjung af fæðingarorlofinu. Það er náttúrulega mikið áhyggjuefni ef það breytist," segir Guðbjartur. „Við höfum raunar vitað það að í niðurskurðinum hefur þetta verið að breytast. Þess vegna höfum við verið að gera áætlanir um að snúa þessu til baka. Í raun hafa allir verið sammála um það. Við vorum í raun að fara í gegnum niðurskurðartímabil og aðlögun sem var óhjákvæmileg."

Guðbjartur segir ráðuneytið nú skoða hvernig hægt sé að bregðast við þessu. Hann á von á að kynntar verði breytingar á fæðingarorlofinu samhliða fjárlagafrumvarpinu næsta haust.

„Það má að vísu segja að þegar við skoðum þessar tölur undanfarin tvö ár þá vitum við ekki nákvæmlega hversu margir eru að bíða með sitt fæðingarorlof því menn mega taka það seinna en það er augljóst að það eru færri karlmenn sem eru að taka orlofið," segir Guðbjartur. „Og þá er bara spurning um að fara að hækka aftur viðmiðunarmörkin sem voru lækkuð verulega í samdrættinum. Við verum að gefa það til baka á einhverjum tíma. Við náum ekki að gera það allt á næsta ári."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×