Enski boltinn

Dalglish hefur enn tröllatrú á Carroll

Kenny Dalglish, stjóri Liverpool, stendur enn þétt við bak framherjans Andy Carroll þó svo framherjinn hafi ekki gert það sem hann á að gera fyrir félagið - skora mörk.

Carroll kostaði 35 milljónir punda og hefur lítið sýnt hingað til í rauða búningnum sem réttlætir þann háa verðmiða. Hann kom frá Newcastle í janúar 2011 og hefur ekkert verið líkur sama leikmanni og fór mikinn í röndótta búningnum.

"Það verða alltaf gagnrýnendur. Það skiptir engu máli fyrir mig. Við vorum hæstánægðir að fá hann til okkar og erum ánægðir að hafa hann í okkar herbúðum," sagði Dalglish um leikmanninn sem snýr aftur til Newcastle á sunnudag.

"Við höfum alltaf sagt að það taki leikmenn mislangan tíma að aðlagast hjá okkur. Andy hefur verið að leggja mjög hart að sér og er réttri leið."

Dalglish vildi ekki ræða það að Carroll hefði skorað aðeins 6 mörk í 39 leikjum í vetur.

"Það má endalaust toga og teygja þessa tölfræði. Ég mun ekki sitja og greina tölfræði allra. Fyrir mig snýst þetta um liðið."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×