Enski boltinn

Manchester United vann Fulham og náði þriggja stiga forskoti á City

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/AFP
Manchester United náði þriggja stiga forskoti á nágranna sína í Manchester City á toppi ensku úrvalsdeildarinnar eftir 1-0 heimasigur á Fulham í kvöld. Það var Wayne Rooney sem skoraði sigurmarkið undir lok fyrri hálfleiks.

Manchester United er þar með búið að vinna sex deildarleiki í röð og jafnframt níu af síðustu tíu leikjum sínum frá því að liðið tapaði á móti Newcastle í upphafi ársins. United og City voru jöfn að stigum fyrir leikinn eftir að City gerði aðeins jafntefli á móti Stoke um helgina.

Sigur Manchester United var aldrei öruggur þar sem liðið hefur oft spilað miklu betur og  tókst heldur ekki að bæta við öðru marki. Fulham átti margar ágætar sóknir í seinni hálfleiknum og vildi fá vítaspyrnu í lokin þegar Danny Murphy féll í teignum. 

Sigurmark Wayne Rooney kom á 42. mínútu eftir að norsku varnarmennirnir Brede Hangeland og John Arne Riise sváfu á verðinum í vörn Fulham eftir fyrirgjöf Ashley Young. Jonny Evans náði frákastinu og kom boltanum á Rooney sem skoraði af stuttu færi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×