Enski boltinn

Vieira brjálaður út í BBC

Patrick Vieira hjá Man. City er allt annað en sáttur með fréttaflutning BBC. Haft var eftir Vieira í viðtali við miðilinn að leikmenn Man. Utd fengu sérmeðferð frá dómurum á Old Trafford.

Vieira segir að orð hans hafi verið mistúlkuð og að fréttamaður BBC hafi tekið við sig viðtal á fölskum forsendum. Vieira mætti í viðtalið til þess að ræða um góðgerðarstarf í Afríku en ekkert hefur verið skrifað um það. Eingöngu það sem hann á að hafa sagt um dómgæsluna á Old Trafford.

"Dan Roan hjá BBC spurði Patrick mjög leiðandi spurninga og Patrick finnst að orð hans hafi viljandi verið tekin úr samhengi," sagði í yfirlýsingu frá Man. City.

"Ég er mjög reiður út í Dan Roan. Ég tók það tvisvar sinnum skýrt fram að ég vildi ekki vera að gagnrýna Man. Utd og minntist meira að segja á að ég hefði ekki séð leikinn gegn Fulham og atvik sem hann vildi tala um," sagði Vieira.

"Ekkert var gert úr aðalhluta viðtalsins og önnur ummæli voru tekin úr samhengi. Ég hef tvisvar hringt í blaðamanninn og beðið um afsökunarbeiðni sem er ekki enn komin.

"Mér finnst að BBC og Dan Roan hafi sýnt mér gríðarlega vanvirðingu."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×