Enski boltinn

Coyle: Líðan Muamba að batna

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Owen Coyle, knattspyrnustjóri Bolton, segir að Fabrice Muamba sé enn á batavegi eftir hjartastoppið og að það viti á gott. Hann er þó enn á gjörgæslu.

Muamba hneig niður í leik fyrir tólf dögum síðan og var í mikilli lífshættu fyrstu dagana. Hann dvelur enn á sjúkrahúsi í London þar sem vel er fylgst með líðan hans.

„Hann er á batavegi en er þó enn á gjörgæslu," sagði Coyle við enska fjölmiðla í dag. „Við fórum um daginn til að hitta hann og þá voru batamerkin augljós. Allt þetta veit á gott fyrir framhaldið."

„Ég vil þakka fjölmiðlum fyrir að gefa Fabrice og fjölskyldu hans næði sem þau þurfa áfram að fá næstu dagana. Hann hefur fengið margar bataóskir sem hafa hjálpað til og veitt honum styrk."

Fulltrúar og læknalið Bolton fær reglulega upplýsingar um líðan Muamba. „Þetta stefnir allt í rétta átt hjá honum og vonandi verður það áfram þannig."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×