Innlent

Rautt táknar vindhviður yfir 20 metrum á sekúndu

Það er víða hvasst eins og sést á kortinu.
Það er víða hvasst eins og sést á kortinu.
Miklar vindhviður eru víðast hvar á landinu eins og sést á meðfylgjandi Vegsjá, sem finna má á vef Vegagerðarinnar. Rauði liturinn táknar sem sagt þá staði þar sem vindhviðurnar fara yfir 20 metra á sekúndu. Guli liturinn táknar hviður á bilinu 15-19 metrar á sekúndu.

Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands mun stormurinn um norðan- og austanvert landið ganga smámsaman niður í dag, einkum þegar líður á daginn.

Él verða norðvestantil og á hæstu fjallvegum, skafrenningur að auki s.s. á Bröttubrekku, Holtavörðuheiði og Öxnadalsheiði. Á Hellisheiði mun einnig ganga á með éljum í dag, en vindur hefur þegar gengið þar mikið niður.

Hálkublettir eru á Mosfellsheiði og Lyngdalsheiði. Annars er að mestu autt á Suðurlandi en þó hálkublettir á örfáum leiðum.

Hálka og skafrenningur er á Bröttubrekku og hálka á Holtavörðuheiði þar sem einnig er óveður. Hálkublettir eru svo víðast hvar á Snæfellsnesi en þó er hálka á Vatnaleið.

Á Vestfjörðum er hálka, snjóþekja eða þæfingur. Á Gemlufallsheiði er hálka og skafrenningur, ófært er svo á öðrum fjallvegum á Vestfjörðum. Hálkublettir og éljagangur er á Ströndum.

Á Norðurlandi vestra eru hálkublettir nokkuð víða. Norðaustanlands er hálka og óveður á Öxnadalsheiði og Mývatnsöræfum.

Óveður er einnig á Víkurskarði en þar er snjóþekja. Á öðrum leiðum eru víða hálkublettir eða hálka.

Austanlands er hálka á Oddskarði en hálkublettir og óveður á Möðrudalsöræfum og Fjarðarheiði.Greiðfært er víða á láglendi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×