Fótbolti

Forráðamenn Hearts kenna varamönnum um ógreidd laun

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Stuðningsmenn Hearts hafa ekki miklu að fagna þessa dagana. Félagið á í miklum fjárhagslegum erfiðleikum.
Stuðningsmenn Hearts hafa ekki miklu að fagna þessa dagana. Félagið á í miklum fjárhagslegum erfiðleikum. Nordic Photos / Getty
Forráðamenn skoska knattspyrnufélagsins Hearts hafa staðfest að félagið nái ekki að greiða leikmönnum sínum laun á réttum tíma í þessum mánuði. Þeir kenna meðalljónum liðsins um sem neituðu að yfirgefa félagið í janúar, þiggja laun sín en leggja ekkert til liðsins.

„Þeir kusu að vera um kyrrt og þiggja laun sín þrátt fyrir að gefa lítið sem ekkert af sér til félagsins," segir í yfirlýsingu á heimasíðu félagsins.

Félagið reyndi að fækka leikmönnum á launaskrá sinni í janúar. Eggert Gunnþór Jónsson var meðal annars seldur til Wolves og Ryan Stevenson til Ipswich. Félagið viðurkennir að það hafi reiknað með hagstæðari janúarmánuði hvað varðaði losun leikmanna af launaskrá en raunin varð.

„Félagið reiknar með því að leikmenn fái greidd laun sín fyrir lok mars," segir ennfremur í yfirlýsingu frá félaginu.

Leikmenn Hearts fengu laun sín greidd of seint þrjá mánuði í röð fyrir áramót. Í kjölfarið kvörtuðu þeir til skosku úrvalsdeildarinnar. Launagreiðslur fyrir janúarmánuð bárust degi of seint en forráðamenn deildarinnar ákváðu að horfa í gegnum fingur sér með það og sektuðu ekki félagið.

Forráðamenn Hearts stefna á að gera starfslokasamninga við nokkra leikmenn sína að tímabilinu loknu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×