Fótbolti

Allt í tómu tjóni hjá Rangers | vafasöm viðskiptaflétta

Craig Whyte, aðaleigandi skoska úrvalsdeildarliðsins Rangers, er í tómum vandræðum enda er hið fornfræga knattspyrnufélag komið í greiðslustöðvun.
Craig Whyte, aðaleigandi skoska úrvalsdeildarliðsins Rangers, er í tómum vandræðum enda er hið fornfræga knattspyrnufélag komið í greiðslustöðvun. Getty Images / Nordic Photos
Craig Whyte, aðaleigandi skoska úrvalsdeildarliðsins Rangers, er í tómum vandræðum enda er hið fornfræga knattspyrnufélag komið í greiðslustöðvun. Fjárhagur liðsins er í rúst og svo virðist sem að Whyte hafi átt stóran þátt í því. Whyte þarf nú að svara ýmsum spurningum og það lítur út fyrir að hann hafi eignast félagið með mjög vafasamri viðskiptafléttu.

Craig Whyte keypti um 85% hlut í Rangers af Sir David Murray í maí á s.l. ári. Samningurinn var með þeim hætti að Whyte tók yfir 18 milljóna punda skuldir félagsins – sem nemur um 3,5 milljörðum kr. Whyte greiddi aðeins 1 pund fyrir félagið með formlegum hætti, eða sem nemur 200 kr.

Breskir fjölmiðlar greina frá því að Craig Whyte hafi í kjölfarið gert samkomulag við miðasölufyrirtækið Ticketus sem keypti alla ársmiða á heimaleiki Rangers til næstu fjögurra ára. Ticketus greiddi Whyte um 24 milljónir punda fyrir réttinn og þetta gerðist aðeins fjórum vikum áður en Whyte eignaðist félagið.

Ticketus greiddi um 4,7 milljarða kr. fyrir miðasöluréttinn og svo virðist sem að Whyte hafi notað það fé í samningaviðræðum við Lloyds bankann í söluferlinu þegar hann eignaðist félagið. Whyte notaði síðan skattpeninga starfsmanna félagsins í rekstur félagsins og safnaði þar með upp um tveggja milljarða kr. skattaskuld sem varð til þess að félagið er nú komið í greiðslustöðvun.

Skattaskuldin er ekkert grín og svo gæti farið að Rangers þyrfti greiða allt að 15 milljarða kr. í skatt þegar málið verður gert upp.

Rangers er nú 17 stigum á eftir Celtic en 10 stig voru dregin af Rangers þegar liðið fór í greiðslustöðvun.

Hinn 41 árs gamli Whyte hefur ekki látið mikið á sér bera að undanförnu og stuðningsmenn Rangers hugsa honum þegjandi þörfina. Hann hefur ekki mætt á leik hjá félaginu frá því að það fór í greiðslustöðvun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×