Innlent

Tuttugu starfsmönnum sagt upp - starfsfólki fækkað alls um 200

Uppstokkun í rekstri Orkuveitu Reykjavíkur, sem staðið hefur undanfarin misseri, lauk í dag. Skipulagi og verklagi er breytt hjá fyrirtækinu og 20 manns var sagt upp störfum. Starfsfólki Orkuveitunnar hefur nú fækkað um 200, úr rúmlega 600 þegar þeir voru flestir árið 2008, í rúmlega 400 nú í lok febrúar.

Fækkun starfsfólks er liður í þeirri áætlun sem stjórn Orkuveitunnar og eigendur samþykktu vorið 2011. Hún gerir ráð fyrir verulegri lækkun rekstrarkostnaðar að því er kemur fram í tilkynningu frá Orkuveitunni.

Orkuveitan stefnir á að lækka rekstrarkostnað fyrirtækisins um tæpan milljarð á árinu 2012, eða um 900 milljónir króna. Ástæðan er sú að skuldabyrði Orkuveitunnar er enn mjög þung.

Svo segir í tilkynningu frá Orkuveitunni: Fyrirtækið leggur áherslu á að milda áhrif uppsagnanna á það fólk sem fyrir þeim verður. Í samræmi við það stendur því til boða 100.000 króna styrkur til greiðslu náms- eða námskeiðsgjalda kjósi það að styrkja stöðu sína með námi.

OR greiðir starfsfólki laun á uppsagnarfresti í samræmi við lög og skyldur en að auki eru viðbótargreiðslur sem miðast við starfsaldur viðkomandi hjá fyrirtækinu. OR samdi við ráðningarþjónustu um vinnumarkaðsaðstoð og við sálfræðistofu um að aðstoða þá sem þess óska.


Tengdar fréttir

Uppsagnir hjá Orkuveitunni - boðað til blaðamannafundar

Orkuveita Reykjavíkur hefur boðað til blaðamannafundar klukkan fjögur í dag. Samkvæmt heimildum fréttastofu er ástæðan uppsagnir innan fyrirtækisins. Þá herma heimildir ennfremur að á annan tug starfsmanna verið sagt upp vegna aðhaldsaðgerða fyrirtækisins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×