Enski boltinn

Mancini opnar dyrnar fyrir Tevez á ný

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Robert Mancini, stjóri City.
Robert Mancini, stjóri City. Nordic Photos / Getty Images
Roberto Mancini, stjóri Manchester City, segir að ef Carlos Tevez hafi áhuga á því þá gæti hann vel spilað með liðinu á nýjan leik. Tevez hefur ekkert spilað síðan í lok september.

„Það vita allir að Carlos er leikmaður í hæsta gæðaflokki," sagði Mancini. „Það væri betra að hafa hann með okkur því hann getur breytt leikjum. Ef hann myndi koma til baka í næstu viku þá er möguleiki á því að hann gæti hjálpað okkur á næstu þremur mánuðum."

Forsagan er sú að Tevez neitaði að koma inn á sem varamaður í leik City og Bayern München í Meistaradeildinni í haust. Síðan þá hafa ásakanir gengið á víxl, Tevez hefur verið margsektaður og hann hefur reyndar dvalið í heimalandi sínu, Argentínu, undanfarna mánuði.

Ekkert varð af því að hann færi annað í janúarmánuði þar sem að City vildi aðeins selja hann - ekki lána. En ef Tevez kemur aftur til Manchester eftir helgi er aldrei að vita hvað gerist.

„Það fer eftir í hvernig standi hann er. Við höfum þegar spilað marga leiki með bara einn framherja. En Carlos veit hvernig staðan er. Ég ræddi við hann áður en hann fór og reyndi að leysa málið."

„Ef hann kemur til baka getum við rætt saman á ný. Það væri ekkert mál mín vegna. Ef hann vill spila getur vel verið að það gangi upp."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×