Enski boltinn

Lescott skaut City aftur á toppinn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Joleon Lescott tryggði Manchester City 1-0 sigur á Aston Villa í lokaleik 25. umferðar ensku úrvalsdeildarinnar. City endurheimti um leið topppsæti ensku úrvalsdeildarinnar.

Leikurinn var þó ekkert sérstaklega fjörlegur en Lescott skoraði markið af stuttu færi eftir hornspyrnu James Milner. Adam Johnson hafði áður komist nálægt því að skora en skot hans endaði í stönginni.

Heimamenn rönkuðu þó við sér á lokakafla leiksins og mátti Joe Hart, markvörður City, hafa sig allan við þegar að Darren Bent var nálægt því að jafna metin fyrir Aston Villa.

City er nú með 60 stig á toppi deildarinnar og tveggja stiga forystu á Manchester United. Aston Villa er í fimmtánda sæti með 28 stig.

Aston Villa varð fyrir áfalli í leiknum en Richard Dunne þurfti að fara meiddur af velli. Talið er að hann hafi viðbeinsbrotnað þegar hann lenti illa á vellinum undir lokin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×