Enski boltinn

Giggs: Erfitt að meta hvenær best sé að hætta

Giggs og Scholes hafa verið lengi í bransanum.
Giggs og Scholes hafa verið lengi í bransanum.
Goðsögnin Ryan Giggs hjá Man. Utd viðurkennir að hann sé hræddur um að velja rangan tímapunkt þegar kemur að því að leggja skóna á hilluna. Það stendur reyndar ekki til hjá Giggs að hætta á næstunni þar sem hann er búinn að semja við Man. Utd út næstu leiktíð.

Giggs mun leika sinn 900. leik fyrir Man. Utd gegn Ajax á fimmtudag og hann mun líklega ná þeim einstaka árangri að spila 1.000 leiki fyrir félag og landslið er hann hættir. Hann er aðeins 31 einum leik frá þeim tímamótum.

"Það er erfitt að meta hvenær maður á að hætta. Hættir maður of snemma eða hangir maður of lengi í boltanum og fer út eftir að hafa misst það? Ég þarf að taka mína ákvörðun þegar þar að kemur því mér líður mismunandi eftir hvern einasta leik," sagði hinn 38 ára gamli Giggs.

"Scholes saknaði þess að spila og það er ekkert leyndarmál að mér, Gary Neville og fleirum fannst hann hætta of snemma. Hann var búinn að taka ákvörðun snemma og getur líklega viðurkennt núna að hann ákvað að hætta of snemma. Hver veit nema hann spili áfram á næsta ári."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×