Enski boltinn

Wenger: Jack Wilshere gæti komið til baka í næsta mánuði

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arsene Wenger og Jack Wilshere.
Arsene Wenger og Jack Wilshere. Mynd/Nordic Photos/Getty
Arsene Wenger, stjóri Arsenal, er bjartsýnn á að sjá miðjumanninn Jack Wilshere í búningi félagsins innan eins mánaðar. Wilshere hefur ekkert spilað með Arsenal á tímabilinu en hann fór í aðgerð á ökkla í september og meiddist síðan aftur í endurhæfingunni.

„Jack getur komið til baka innan eins mánaðar ef allt gengur vel," sagði Arsene Wenger á blaðamannafundi í dag fyrir leik liðsins á móti AC Milan í Meistaradeildinni á morgun. Wenger staðfesti það líka að þýski varnarmaðurinn Per Mertesacker verður ekkert með næsta mánuðinn en hann meiddist á ökkla á móti Sunderland um helgina.

Wilshere spilaði síðast með Arsenal í leik á móti New York Red Bulls á æfingamóti 31. júlí síðastliðinn en það er almennt talið að hann hafi meiðst fyrst í landsleik með Englandi mánuði áður.

„Endurhæfingin eftir síðasta bakslag lítur mjög vel út og síðasta myndatakan kom vel út. Við stígum þó varlega til jarðar og pössum vel upp á hann því við fórum of hratt á dögunum. Hann getur spilað samt með okkur á þessu tímabili," sagði Wenger.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×