Enski boltinn

Frank de Boer: Ég vona að Luis Suarez verði áfram hjá Liverpool

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Patrice Evra og Luis Suarez.
Patrice Evra og Luis Suarez. Mynd/AP
Frank de Boer, þjálfari Ajax, vonast til þess að Luis Suarez haldi áfram að spila með Liverpool á næsta tímabili þrátt fyrir allt fjaðrafokið á síðustu mánuðum í kringum Suarez og Patrice Evra hjá Manchester United. De Boer segir að Suarez sé góð og hlý manneskja þrátt fyrir að hafa verið dæmdur fyrir kynþáttaníð.

„Þetta mál kemur mér mikið á óvart því ég þekki hann sem mjög hlýja manneskju. Hann er sannur sigurvegari og það kviknar á honum þegar leikurinn er flautaður á," sagði Frank de Boer.

„Þetta er strákur af götunum í Úrúgvæ. Hann gerir allt til þess að vinna og leggur mikið á sig til að ná árangri. Stundum gerir samt heimskulega hluti og við sáum það líka í hollensku deildinni. Hann tók út sína refsingu þá og hefur einnig gert það núna. Ég vona að hann verði áfram hjá Liverpool því það er enginn í vafa um að þarna er frábær fótboltamaður á ferðinni," sagði De Boer.

Frank de Boer er sannfærður um að Luis Suarez sé ekki kynþáttarhatari en segir það hafa verið rangt hjá leikmanninum að taka ekki í höndina á Evra fyrir leikinn á Old Trafford. "Það voru stór mistök hjá honum og Liverpool. Það skemmdi mikið orðspor hans og allt þetta mál hefur skaðað bæði Suarez og Liverpool," sagði De Boer.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×