Enski boltinn

Capello orðaður við Anzhi og Inter

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Ítalskir fjölmiðlar voru ekki lengi að bregðast við fregnum af uppsögn Fabio Capello hjá enska knattspyrnusambandinu og segja að hann verði ekki í vandræðum með að finna sér nýtt starf.

Capello tók við enska landsliðinu árið 2007 en hætti nú, aðeins fjórum mánuðum fyrir EM í knattspyrnu, vegna deilna um mál John Terry sem var sviptur fyrirliðabandi enska landsliðsins af stjórn sambandsins.

Capello hafði verið orðaður við stjórastöðun hjá Inter á Ítalíu og lifa þær sögusagnir enn góðu lífi nú. Hann var áður stjóri hjá Juventus, Roma og AC Milan og sagði í frétt Gazzetta dello Sport að hann gæti þess vegna snúið aftur til Juve sem er á toppnum í Ítalíu.

En rússneska félagið Anzhi Makhachkala ætlar sér stóra hluti á næstu árum og munu forráðamenn þess vera spenntir fyrir Capello, þó svo að þeir séu nýbúnir að ráða sér þjálfara.

Óvíst er hvað Capello tekur sér fyrir hendur en hann var áður búinn að gefa það út að hann ætlaði sér jafnvel að hætta þjálfun eftir EM í sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×