Enski boltinn

Tuttugu ára Belgi í læknisskoðun hjá Chelsea

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kevin de Bruyne.
Kevin de Bruyne. Mynd/Nordic Photos/Getty
Chelsea vonast til að ganga frá kaupum á belgíska miðjumanninum Kevin de Bruyne frá Genk sem fyrst en leikmaðurinn fer í læknisskoðun á Stamford Bridge í dag. De Bruyne heillaði Andre Villas-Boas, stjóra Chelsea, þegar enska liðið mætti Genk í Meistaradeildinni fyrr í vetur.

Kevin de Bruyne er 20 ára og er uppalinn hjá Genk. Hann lék sinn fyrsta leik með aðalliðinu árið 2009 og spilaði sinn fyrsta landsleik í ágúst 2010. Móðir Kevin de Bruyne fæddist í London.

De Bruyne er með 6 mörk og 3 stoðsendingar í 15 leikjum í belgísku deildinni á þessu tímabili en hann lagði upp 16 mörk fyrir félaga sína á síðustu leiktíð.

Chelsea mun samkvæmt heimildum BBC kaupa leikmanninn á 6.7 milljónir punda og lána hann síðan aftur til belgíska liðsins út þetta tímabil.

„Þetta er leikmaður sem félagið hefur fylgst með lengi. Félagið verður að horfa til framtíðar og þetta er leikmaður sem hægt er að veðja á," sagði Andre Villas-Boas.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×