Enski boltinn

Speed lést mögulega af slysförum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Gary Speed.
Gary Speed. Nordic Photos / Getty Images
Það er mögulegt að Gary Speed, fyrrum landsliðsþjálfari Wales, hafi látist af slysförum en ekki fyrirfarið sér eins og hingað til hefur verið talið.

Þetta er úrskurður réttarlæknis sem bar vitni í réttarrannsókn á andláti Speed. Dánarorsök er henging en ekki er úrskurða með óyggjandi hætti hvort Speed hafi ætlað sér að fyrirfara sér eða ekki.

Réttarlæknirinn, Nicholas Rheinberg, sagði að Speed hafi mögulega sofnað með snöru um hálsinn þar sem hann sat í kjallaranum á heimili sínu.

Eiginkona hans, Louise, kom að Speed að honum látnum að morgni sunnudagsins 27. nóvember síðastliðins. Hún bar vitni um að Speed hafi sent henni SMS-skilaboð nokkrum dögum áður þar sem hann talaði á þeim nótum að hann myndi mögulega fyrirfara sér.

Hann mun síðan hafa dregið orð sín til baka og sagt að hann væri spenntur fyrir framtíð sinni og fjölskyldunnar en Speed og kona hans áttu tvo syni. Hún staðfesti fyrir dómnum að Speed skildi engin skilaboð eða bréf eftir sig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×