Innlent

Vilja rannsóknarsetur á sviði utanríkis- og öryggismála

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra skipaði nefnina.
Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra skipaði nefnina.
Ríkisstjórnin vill að stofnað verði sjálfstætt rannsóknarsetur á Íslandi á sviði utanríkis- og öryggismála. Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra hefur skipað nefnd til mótunar þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland, eins og kveðið er á um í þingsályktun sem samþykkt var á Alþingi í haust. Það verður jafnframt hlutverk nefndarinnar að setja rannsóknarsetrið á fót.

Í nefndinni, sem Össur skipaði, sitja fulltrúar allra þingflokka en formaður, sem skipaður er af utanríkisráðherra, er Valgerður Bjarnadóttir, alþingismaður. Aðrir nefndarmenn eru alþingismennirnir Mörður Árnason, Magnús Orri Schram, Einar K. Guðfinnsson, Ragnheiður Elín Árnadóttir, Árni Þór Sigurðsson, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, Eygló Harðardóttir, Gunnar Bragi Sveinsson og Birgitta Jónsdóttir, að því er segir í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu.

Hlutverk nefndarinnar er að fjalla um og gera tillögur um stefnu sem tryggi þjóðaröryggi Íslands á grundvelli her- og vopnleysis. Við mótun stefnunnar á nefndin að taka mið af áhættumatsskýrslu fyrir Ísland frá árinu 2009, stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna og öðrum alþjóðlegum skuldbindingum Íslands, meðal annars. um bann við kjarnorkuvopnum, samþykktum Alþingis um stefnu Íslands í afvopnunarmálum og frumvarpi til laga um friðlýsingu Íslands fyrir kjarnorkuvopnum og bann við umferð kjarnorkuknúinna farartækja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×