Enski boltinn

Milan segir ólíklegt að Tevez komi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Carlos Tevez í leik með Manchester City.
Carlos Tevez í leik með Manchester City. Nordic Photos / AFP
Sagan langa um Carlos Tevez og Manchester City tekur líklega ekki enda á morgun. Forráðamenn AC Milan segja í það minnsta ólíklegt að Tevez komi til félagsins áður en lokað verður fyrir félagaskipti annað kvöld.

Enska dagblaðið Guardian fjallar ítarlega um málið á vefsíðu sinni í kvöld. Þar kemur fram að Tevez verði líklega áfram leikmaður Manchester City þar til að keppnistímabilinu lýkur í vor, í minnsta lagi.

Framkvæmdarstjóri AC Milan, Adriano Galliani, hefur verið í beinum samskiptum við Khaldoon al-Mubarak, stjórnarformann City, vegna Tevez. AC Milan bauðst til að taka hann á láni til loka tímabilsins en því var alfarið hafnað af City.

„Við eigum ekki von á því að Tevez muni ganga til liðs við félagið og við mun líklega skoða hans mál aftur í sumar," sagði Galliani við ítalska fjölmiðla í dag. „En það gæti eitthvað óvænt gerst á morgun. Stundum gerist hlutirnir hratt. En eins og málin standa nú finnst mér ólíklegt að eitthvað gerist."

83 dagar eru liðnir síðan að Tevez fór í leyfisleysi frá Englandi til Argentínu. 63 dagar eru liðnir síðan að City hætti að greiða honum laun en málið hófst allt með því að hann neitaði að koma inn á sem varamaður í leik City og Bayern München í Meistaradeild Evrópu í haust.

Lokað verður fyrir félagaskipti í Englandi og víðar í Evrópu á morgun. Tevez hefur helst verið orðaður við AC Milan, Inter og Paris Saint-Germain. Einnig hafa Liverpool og West Ham verið nefnd til sögunnar.

Grein Guardian má lesa hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×