Enski boltinn

United ákvað að selja hinn stórefnilega Morrison

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ravel Morrison í leik með United.
Ravel Morrison í leik með United. Nordic Photos / Getty Images
Ravel Morrison, átján ára miðvallarleikmaður, gekk í dag í raðir West Ham frá Manchester United. Því hefur verið haldið fram að hann sé einn efnilegasti leikmaður landsins en hann hefur þó átt í talsverðum erfiðleikum utan knattspyrnuvallarins undanfarin ár.

Morrison samdi við West Ham til 2015 en samkvæmt heimildum BBC eru engin sérstök ákvæði í samningnum um að United hafi rétt á að kaupa hann til baka eftir ákveðinn tíma.

Það virðist því sem svo að Alex Ferguson hafi ákveðið að rjúfa öll tengsl við Morrison sem hefur verið sagður hinn næsti Paul Scholes. Samningur hans við United átti að renna út í sumar og höfðu samningaviðræður gengið illa. Sagði Ferguson að kröfur Morrison væru óraunhæfar.

Morrison hefur lent í ýmsum vandræðum í sínu einkalífi og nokkrum sinnum verið dreginn fyrir rétt fyrir hin ýmsu lögbrot. Hann hefur þó hingað til sloppið við fangelsisvist, þó svo að hann hafi verið í eitt ár á skilorði.

„Ég er mjög ánægður með skiptin," sagði Morrison á heimasíðu West Ham. „Þetta gerðist allt mjög fljótt og ég hlakka til að komast vonandi sem allra fyrst upp í ensku úrvalsdeildina með West Ham."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×