Enski boltinn

Hamann tapaði meira en kvartmilljón punda á krikketleik

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Þjóðverjinn Dietmar Hamann hefur gefið út ævisögu sína, The Didi Man, en í henni segir hann að hann hafi eitt sinn tapað 288 þúsund punda með því að veðja á krikketleik.

Það gera um 55 milljónir króna á núverandi gengi en Hamann útskýrir hvað honum hafi gengið til í ævisögunni en umræddur krikketleikur var á milli Ástralíu og Suður-Afríku.

„Ég ákvað að veðja á að Ástralía myndi skora meira en 340 stig. Fyrir hvert aukastig fengi ég 2800 pund en tapa jafn miklu fyrir hvert stig undir 340 stigum," segir í bókinni.

„Ástralska landsliðið átti hræðilegan dag og skoraði 237 stig. Ég man vel hvernig leikurinn endaði því ég tapaði 288.400 pundum."

Í krikket er gefið stig í hvert sinn sem þeir leikmenn sem eru að slá komast á milli hafna. Þeir eru hins vegar úr leik ef kastarinn nær að koma boltanum í pinna sem hinn leikmaðurinn þarf að verja með kylfu.

„Hver pinni sem féll var eins og rýtingur í hjartað. Mér leið eins og að ég hafi verið féflettur. Næsta dag leit ég í spegilinn og sagði við sjálfan mig að nú þyrfti ég að breytast."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×