Enski boltinn

Balotelli tryggði City sigur á Tottenham í uppbótartíma

Stefán Árni Pálsson skrifar
Manchester City tók á móti Tottenham á Etihad- vellinum í ensku úrvalsdeildinni í dag. Mario Balotelli tryggði Manchester City sigur, 3-2, úr vítaspyrnu þegar fjórar mínútur voru komnar framyfir venjulegan leiktíma.

Leikurinn hófst heldur rólega og voru bæði lið lengi í gang. Hvorugt liðið náði að skapa sér hættuleg færi í fyrri hálfleiknum og því var staðan 0-0 þegar leikmenn gengu til búningsherbergja.

Gestirnir frá Manchester komust yfir í leiknum þegar rúmlega tíu mínútur voru liðnar af síðari hálfleiknum en þá skoraði Samir Nasri frábært mark eftir magnaða stungusendingu frá David Silva.

Það tók City aðeins þrjá mínútur að komast í 2-0 en þá skoraði Joleon Lescott skrautlegt mark eftir hornspyrnu. Tottenham minnkaði aftur á móti muninn aðeins einni mínútu síðar þegar Jermanie Defoe nýttu sér skelfileg mistök frá varnarmanninum Stefan Savic og renndi síðan boltanum framhjá Joe Hart í marki City.

Aðeins fimm mínútum síðar var staðan orðin 2-2 þegar Gareth Bale skoraði með frábæru langskoti alveg óverjandi fyrir Joe Hart í marki City.

Á 90. mínútu leiksins fékk Jermaine Defoe, leikmaður Tottenham, algjört dauðafæri þegar hann fékk sendingu frá Gareth Bale. Defoe renndi sér í boltann en stýrði honum rétt framhjá.

Í staðinn náðu City menn í vítaspyrnu á 94. mínútu þegar Ledley King braut á Mario Balotelli innan vítateigs. Balotelli steig sjálfur á punktinn og tryggði Manchester City frábæran sigur 3-2. Manchester City er því enn í efsta sæti deildarinnar með 54 stig en Tottenham er í þriðja sætinu með 46 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×