Enski boltinn

Markalaust hjá Norwich og Chelsea | Martröð Torres heldur áfram

Nordic Photos / Getty Images
Fernando Torres tókst enn og aftur ekki að skora þegar að lið hans, Chelsea, gerði markalaust jafntefli við Norwich í fyrsta leik ensku úrvalsdeildarinnar í dag.

Chelsea tapaði þar með dýrmætum stigum í toppbaráttunni en liðið er nú tíu stigum á eftir toppliði Manchester City sem á leik til góða þar að auki.

Torres hefur ekki náð sér á strik síðan hann var keyptur frá Liverpool fyrir 50 milljónir punda fyrir um ári síðan og sárasjaldan náð að skora í bláa búningnum.

Engin breyting var þar á í dag. Hann komst nálægt því að skora í fyrri hálfleik en skaut fram hjá. Grant Holt, sóknarmaður Norwich, átti besta færi liðsins þegar hann skaut naumlega fram hjá undir lok fyrri hálfleiksins.

Torres fékk svo mjög gott færi í seinni hálfleik til að skora en skaut með tánni og boltinn fór fram hjá. John Ruddy, markvörður Norwich, átti góðan dag en þetta var í fyrsta sinn á tímabilinu sem Norwich tókst að halda hreinu.

Chelsea er í fjórða sæti með 41 stig en Norwich því níunda með 29.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×