Enski boltinn

Réttað yfir Harry Redknapp - sakaður um skattsvik

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Redknapp yfirgefur réttarhöldin í Southwark í gær.
Redknapp yfirgefur réttarhöldin í Southwark í gær. Nordic Photos / Getty Images
Réttarhöld yfir Harry Redknapp, knattspyrnustjóra Tottenham Hotspur, hófust í Southwark á Englandi í gær. Redknapp er sakaður um að hafa lagt greiðslur, sem hann fékk sem yfirmaður knattspyrnumála og knattspyrnustjóri Portsmouth, inn á reikning í Mónakó án þess að greiða af þeim skatt.

Málið virðist snúast um greiðslu sem Redknapp fékk frá Milan Mandaric, þáverandi eiganda Portsmouth, þegar Peter Crouch var seldur frá Portsmouth til Aston Villa árið 2002. Mandaric er einnig ákærður fyrir sinn hlut í skattsvikunum.

Í samningi Redknapp við Portsmouth átti hann að fá 10 prósent af hagnaði við sölu leikmanna frá félaginu. Hlutfallið lækkaði þó í 5 prósent þegar hann lét af starfi yfirmanns knattspyrnumála og tók við starfi knattspyrnustjóra hjá félaginu á vormánuðum árið 2002.

Peter Crouch var keyptur til Portsmouth frá QPR árið 2001 fyrir 1.25 milljónir punda. Níu mánuðum síðar var hann seldur frá félaginu til Villa á 4.5 milljónir punda. Svo virðist sem Redknapp hafi fengið tvær aðskildar greiðslur frá Mandaric á árunum 2002-2007, hvor um sig að verðmæti rúmlega 90 þúsund punda eða sem nemur um 18 milljónum íslenskra króna.

Redknapp er talinn hafa lagt fjárhæðirnar inn á bankareiking í Mónakó. Reikningurinn er þó ekki skráður fyrir reikningnum heldur Rosie47. Talið er að Rosie sé tilvísun í hund Redknapp sem ber sama nafn en knattspyrnustjórinn er fæddur árið 1947.

Réttarhöldunum yfir Redknapp verður fram haldið í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×