Enski boltinn

Aron Einar og félagar komnir á Wembley

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aron Einar Gunnarsson.
Aron Einar Gunnarsson. Mynd/Nordic Photos/Getty
Aron Einar Gunnarsson og félagar í Cardiff City komust í kvöld í úrslitaleikinn í enska deildabikarnum eftir sigur á Crystal Palace eftir vítakeppni. Tom Heaton var hetja velska liðsins því hann varði tvö víti í vítakeppninni.

Cardiff vann leikinn í kvöld 1-0 en Crystal Palace vann fyrri leikinn með sömu markatölu. Það var ekkert skorað í framlengingunni en Cardiff vann 3-1 sigur í vítakeppni þrátt fyrir að fyrsta vítaspyrna liðsins hafi farið forgörðum.

Cardiff City mætir annaðhvort Manchester City eða Liverpool í úrslitaleiknum á Wembley en þau leika seinni undanúrslitaleik sinn á morgun. Liverpool vann fyrri leikinn 1-0.

Cardiff var manni fleiri frá 78. mínútu eftir að Patrick McCarthy, fyrirliði Crystal Palace, fékk sitt annað gula spjald. McCarthy fékk bæði spjöldin fyrir að brjóta á Kenny Miller, framherja Cardiff.

Þrátt fyrir stórsókn þá tókst Cardiff ekki að skora annað mark manni fleiri. Kenny Miller átti skot í stöng í fyrri hálfleik, Filip Kiss skaut í slá í framlengingunni og Aron Einar átti skalla í slána úr dauðafæri á lokasekúndunum.

Aron Einar lék allan leikinn á miðju Cardiff en hann spilaði líka allar 90 mínúturnar í fyrri leiknum.

Anthony Gardner tryggði Crystal Palace 1-0 sigur í fyrri leiknum í síðustu viku en hann gerði það forskot að engu með því að skora sjálfsmark á 7. mínútu. skallaði boltann í eigið mark eftir fyrirgjöf Craig Conway.

Vítakeppnin:

0-0 Kenny Miller, yfir

0-0 Jermaine Easter, varið (Tom Heaton)

1-0 Craig Conway, mark

1-0 Sean Scannell, varið (Tom Heaton)

2-0 Rudy Gestede, mark

2-1 Mile Jedinak, mark

3-1 Peter Whittingham, mark

3-1 Jonathan Parr, framhjá




Fleiri fréttir

Sjá meira


×