Jack Wilshere, miðjumaður Arsenal og enska landsliðsins, hefur ekkert spilað með liði sínu á tímabilinu vegna meiðsla og það lítur út fyrir að leikmaðurinn þurfi nú að bíða enn lengur eftir að komast aftur inn á völlinn.
Arsene Wenger, stjóri Arsenal, talaði um afturkipp í bata leikmannsins á blaðamannafundi í dag. „Við erum að skoða þetta betur en hann finnur til í ökklanum," sagði Wenger.
Wilshere meiddist á hægri ökkla í landsleik með Englendingum í júní síðastliðnum en forráðamenn Arsenal vonuðust til að hann gæti byrjað að spila aftur í þessum mánuði.
Wilshere, sem er bara tvítugur, verður örugglega með í EM-hópi enska landsliðsins í sumar verði hann orðinn góður af meiðslunum.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem er tilkynnt um seinkun á endurkomu Wilshere og því eru örugglega margir farnir að hafa miklar áhyggjur af því hvort Wilshere muni hreinlega ná sér að fullu af þessum meiðslum.
Wilshere finnur enn til í ökklanum
Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
