Enski boltinn

Gerrard: Andy Carroll er frábær leikmaður

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Gerrard og Dalglish leggja á ráðin á Anfield í dag.
Gerrard og Dalglish leggja á ráðin á Anfield í dag. Nordic Photos / Getty Images
Steven Gerrard, fyrirliði Liverpool, hrósaði framherjanum Andy Carroll í hástert eftir sigur liðsins á Manchester United í enska bikarnum í dag.

„Andy Carroll er frábær leikmaður. Ef ekki væri fyrir hann er ólíklegt að við værum í pottinum á morgun. Hans framlag í leiknum í dag var mikið. Þá voru stuðningsmennirnir stórkostlegir og brugðust okkur ekki. Þeir sáu að við vorum þreyttir eftir leikinn í vikunni (gegn Manchester City) en þeir áttu stóran þátt í mörkunum," sagði Gerrard.

Kenny Dalglish, stjóri Liverpool, hrósaði einnig áhorfendum á Anfield í dag.

„Stuðningsmenn beggja félaga hegðuðu sér vel og voru frábær auglýsing fyrir bæði félög. Það voru vinsamlegir söngvar og þannig á það að vera," sagði Dalglish og hrósaði um leið markaskoraranum Dirk Kuyt.

„Við héldum út leikinn og svo skoraði Dirk Kuyt sitt fimmtugasta mark og tryggði okkur sigur. Við erum í skýjunum," sagði Dalglish. Skoski knattspyrnustjórinn virðist þó ekki alveg hafa á hreinu markafjölda Hollendingsins sem hefur skorað 68 mörk fyrir Liverpool. 49 þeirra hafa komið í deildinni og líklegt að það hafi valdið misskilningi Skotans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×