Enski boltinn

Jewell þvertekur fyrir að vera karlremba

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Paul Jewell segir að hann hafi ekki verið að gera lítið úr konum þegar hann var í viðtali við fjölmiðla eftir 2-1 tap sinna manna í Ipswich fyrir Birmingham á dögunum.

Jewell var ósáttur við að hafa ekki fengið vítaspyrnu í stöðunni 1-1 en Birmingham skoraði sigurmarkið á lokamínútum leiksins. Hann var bæði ósáttur við dómara leiksins, Robert Lewis, og Amy Fearn aðstoðardómara.

Blaðamaður spurði Jewell hvort að það hafi ekki verið augljóst fyrir „öllum mönnum" að um vítaspyrnu væri að ræða.

„Jú öllum mönnum en því miður ekki konum," sagði Jewell þá. „Dómarinn sá þetta ekki nógu vel en mér fannst línukonan, eða hvað sem á að kalla hana, afar vel staðsett."

Samtök knattspyrnudómara í Englandi sögðu ummælin klárlega niðrandi í garð kvenna en Jewell segir það þvætting. „Ég tek fyrir öll slík ummæli að ég hafi talað niður til kvenna. Ég gaf engan veginn í skyn að dómarinn [Fearn] gerði þessi mistök vegna þess að hún er kona. Það eina sem ég meinti er að hún var í aðstöðu til að bregðast við atvikinu."

„Ég er tilbúinn að rífast við hvern sem er um þetta í allan dag en ég er enginn karlremba."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×