Enski boltinn

Van der Vaart: Hér trúa því allir að við getum unnið titilinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rafael van der Vaart.
Rafael van der Vaart. Mynd/Nordic Photos/Getty
Rafael van der Vaart, hollenski landsliðsmaðurinn hjá Tottenham, er sannfærður um að liðið geti orðið enskur meistari í fyrsta sinn í meira en 50 ára en Tottenham er aðeins þremur stigum á eftir toppliði Manchester City og með jafnmörg stig og Manchester United.

„Auðvitað getum við barist um titilinn. Það var mikilvægt að vinna Everton og fá þrjú góð stig í hús. Núna vita allir að Tottenham er með frábært lið og ef við höldum áfram að spila svona þá erum við sigurstranglegir. Framundan er risaleikur við Manchester City og við bíðum allir spenntir," sagði Rafael van der Vaart.

„Manchester City hefur ekki sýnt mikinn stöðugleika að undanförnu og hefur verið að tapa í síðustu leikjum. Við verðum að nýta okkur það að sjálfstraustið er kannski ekki eins mikið í þeirra liði og áður. City er með frábæra leikmenn og marga leikmenn sem geta ráðið úrslitum í leikjum. Við erum með sterkari liðsheild að mínu mati og þetta verður því áhugaverður leikur," sagði Van der Vaart.

„Það líkar engum að koma og spila á White Hart Lane því við erum ótrúlega sterkir á heimavelli. Við sjáum samt betur hvar við stöndum eftir Manchester City leikinn en allir hjá Tottenham trúa því að við getum unnið titilinn," sagði Van der Vaart.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×