Enski boltinn

Villas-Boas: Samband okkar Lampard er frábært

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Frank Lampard.
Frank Lampard. Mynd/Nordic Photos/Getty
André Villas-Boas, stjóri Chelsea, hefur engu að kvarta yfir sambandi sínu við Frank Lampard en enski landsliðsmiðjumaðurinn hefur setið óvenju mikið á varamannabekk Chelsea-liðsins á þessu tímabili.

Lampard var ekki í byrjunarliðinu í stórleikjum á móti Valencia, Manchester City og Tottenham Hotspur fyrir jól en leikmaðurinn sagðist sjálfur ekkert hafa rætt um það við stjórann.

„Samband okkar er frábært enda hittumst við og tölum saman á hverjum degi. Frank er líka leikmaður sem við erum ekki tilbúnir að selja sama hversu tilboðið er hátt," sagði André Villas-Boas aðsðpurður um samband sitt og Lampard sem og orðróm um að LA Galaxy vilji fá leikmanninn til Bandaríkjanna.

„Við veljum ellefu manna liðið út frá því sem hentar best í hverjum leik og Frank hefur gert gæfumuninn í síðustu tveimur leikjum sem frábærum tímasetningum á hlaupum sínum inn í teig," sagði Villas-Boas og er að tala um mörk hans á móti Wolves og Portsmouth. Lampard hefur alls skorað 10 mörk fyrir Chelsea á leiktíðinni.

„Frank vill vissulega fá að spila alla leiki eins og hann er vanur en það eru allir leikmenn í okkar félagi að berjast um sín sæti í liðinu. Ég hef aldrei sagt neitt annað. Það efast enginn um hans hæfileika en stundum passar það betur fyrir okkar leik að nota aðra leikmenn í sumum leikjum," sagði Villas-Boas.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×