Enski boltinn

Everton búið að kaupa Darron Gibson frá Manchester United

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Darron Gibson.
Darron Gibson. Mynd/Nordic Photos/Getty
Everton er búið að ganga frá kaupum á miðjumanninum Darron Gibson frá Manchester United en samningur Gibson við United var að renna út í sumar og hann hefur fengið fá tækifæri með ensku meisturum á þessu tímabili.

Kaupverðið er ekki gefið upp en það er talið vera í kringum hálfa milljón punda. Darron Gibson er 24 ára írskur landsliðsmaður og mun hann skrifa undir fjögurra og hálfs árs samning.

Sir Alex Ferguson, stjóri Manchester United, hafði enga trú á Darron Gibson því hann var aðeins búinn að spila tvo leiki á tímabilinu þrátt fyrir að United-liðið sé búið að missa marga miðjumenn í meiðsli á leiktíðinni.

Darron Gibson og Wayne Rooney voru báðir meðal þeirra leikmanna United sem misstu sæti sitt í liðinu eftir að hafa farið í leyfissleysi út að borða að kvöldi annars dags jóla.

David Moyes, stjóri Everton, fagnar örugglega komu Gibson því miðjumennirnir Jack Rodwell og Leon Osman eru meiddir og hann hefur ekki fengið neinn leikmann inn fyrir Mikel Arteta sem var seldur til Arsenal í ágúst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×