Enski boltinn

Chelsea loksins að ganga frá kaupunum á Cahill

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Samkvæmt enskum fjölmiðlum er Gary Cahill á leið til Lundúna þar sem hann mun gangast undir læknisskoðun og skrifa á morgun undir langtímasamning við Chelsea.

Sautján dagar eru liðnir síðan að Bolton samþykkti tilboð Chelsea í kappann en viðræður um kaup og kjör hans hafa tekið langan tíma.

Samningur Cahill er sagður vera virði um 23 milljóna punda og gilda til loka tímabilsins 2017. Hann var enn fremur sagður vilja fá 100 þúsund pund í vikulaun en hafi á endanum sæst á 80 þúsund pund.

Talið er að gengið verði frá samningum á morgun og að hann verði kynntur fyrir stuðningsmönnum á leik Chelsea og Sunderland.

Samningur Cahill við Bolton rennur út í sumar og því ákvað félagið að selja hann nú fremur en að missa hann frítt í sumar. Talið er að Chelsea borgi 5-7 milljónir punda fyrir kappann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×