Enski boltinn

Gylfi lagði upp sigurmarkið í sínum fyrsta deildarleik með Swansea

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/Nordic Photos/Getty
Gylfi Þór Sigurðsson átti frábæra innkomu í sínum fyrsta leik í ensku úrvalsdeildinni í dag þegar hann lagði upp sigurmark Swansea City í 3-2 sigri á Arsenal. Gylfi kom inn á sem varamaður í hálfleik og lagði upp sigurmarkið sem Danny Graham skoraði á 70. mínútu.

Swansea City hoppaði fyrir vikið upp um þrjú sæti og upp í 10. sæti deildarinnar en liðið er búið að vinna þrjá fyrstu leiki sína í deild og bikar á árinu 2012. Gylfi kom líka inn á sem varamaður í 4-2 bikarsigri á Barnsley um síðustu helgi en hann er í láni frá þýska félaginu Hoffenheim.

Arsenal fékk draumabyrjun í leiknum þegar Robin van Persie skoraði á 5. mínútu eftir að hafa fengið stungusendingu frá Andrei Arshavin. Swansea jafnaði metin ellefu mínútum síðar en Scott Sinclair skoraði þá úr vítaspyrnu sem dæmd var á Aaron Ramsey fyrir brot á Nathan Dyer.

Gylfi Þór kom inn á sem varamaður í hálfleik og tólf mínútum síðar kom Nathan Dyer Swansea í 2-1 eftir varnarmistök hjá Arsenal. Gylfi Þór tók sex hornspyrnur á fyrstu 17 mínútum í seinni hálfleik og Swansea pressaði Arsenal-liðið grimmt.

Arsenal náði hinsvegar skyndisókn á 69. mínútu, Theo Walcott slapp í gegn eftir langa sendingu frá Johan Djourou og lyfti boltanum skemmtilega yfir Michel Vorm, markvörð Swansea.

Swansea tók sér ekki langan tíma í að komast aftur yfir í leiknum. Gylfi Þór stakk boltanum þá inn á Danny Graham sem skoraði laglega. Þetta var ekki fyrsta færið sem Gylfi bjó til fyrir Graham í leiknum.

Arsenal pressaði mikið á lokakafla leiksins en tókst ekki að skapa sér nægilega góð færi og baráttuglaðir leikmenn Swansea héldu út. Thierry Henry kom inn á 63. mínútu leiksins en það dugði ekki til. Arsenal er áfram í 5. sæti fjórum stigum á eftir Chelsea sem er í 4. sætinu.



Staðan í ensku úrvalsdeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×