Enski boltinn

Carrick vill helst losna við það að spila í vörninni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Michael Carrick með Ryan Giggs og Wayne Rooney.
Michael Carrick með Ryan Giggs og Wayne Rooney. Mynd/Nordic Photos/Getty
Michael Carrick, er miðjumaður að upplagi, en hefur þurft að spila í vörninni hjá Manchester United í nokkrum leikjum að undanförnu vegna manneklu. Carrick viðurkennir að hann sé feginn að komast aftur upp á miðjuna.

Lærisveinar Sir Alex Ferguson hafa tapað tveimur síðustu deildarleikjum sínum á móti Blackburn og Newcastle en fá Bolton í heimsókn á Old Trafford í dag.

„Maður verður bara að sætta sig við að þurfa að spila í mörgum stöðum. Það kallar á öðruvísi hugsun því þá bíða þín allt aðrar skyldur inn á vellinum. Þetta er samt bara hluti af leiknum," sagði Michael Carrick.

„Ég veit samt ekki af hverju ég er sá eini af miðjumönnunum sem hefur þurft að fara í vörnina. Mér er samt alveg sama og þetta er ekkert vandamál. Þetta snýst um að gera það sem hjálpar liðinu," sagði Carrick.

Carrick var í vörninni á móti Wigan og Blackburn en leynir því ekkert að hann vill komast aftur upp á miðjuna. Það má búast við því að hann verði á miðjunni á móti Bolton í dag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×