Enski boltinn

Fowler: Ég sé það ekki gerast að ég fari aftur í Liverpool

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Robbie Fowler og Steven Gerrard fagna saman marki með Liverpool.
Robbie Fowler og Steven Gerrard fagna saman marki með Liverpool. Mynd/Nordic Photos/Getty
Hinn 36 ára gamli Robbie Fowler hefur komið upp í huga margra í allri umræðunni um endurkomur Thierry Henry og Paul Scholes í ensku úrvalsdeildina en þeir Henry og Scholes hafa slegið í gegn eftir að þeir snéru aftur.

Robbie Fowler á að baki frábæran feril með Liverpool en sér það ekkert í spilunum að hann snúi aftur á Anfield þrátt fyrir að hann sé enn að spila fótbolta. Það er reyndar spurning hvort að það væri ekki í lagi að reyna það því ekki eru framherjar Liverpool í dag að skora mikið af mörkum þessa dagana.

Robbie Fowler skoraði 120 mörk í 236 leikjum með Liverpool á árunum 1992 til 2001. Núna leikur hann með Muangthong United í Tælandi en hann þjálfar einnig liðið.

Norska blaðið Verdens Gang hitti Robbie Fowler í Tælandi og spurði hann út í möguleikann á því að spila aftur fyrir Liverpool.

„Ef ég er alveg hreinskilinn þá held ég að sá tími sé liðinn. Í draumaveröld hefði það verið frábært að snúa aftur á Anfield en ég sé það ekki gerast að ég fari aftur í Liverpool," sagði Robbie Fowler.

„Það er alls ekki slæmt að vera hér í Tælandi. Veðrið er aðeins betra en í Evrópu enda er nú allt betra en verðið í Englandi. Hér skín sólin á hverjum einasta degi, ég er búinn að vera hér í fimm til sex mánuði og líkar vel," sagði Fowler sem á reyndar að baki eina endurkomu á Anfield sem stóð stutt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×