Íslenski boltinn

Valur gæti fengið sæti í Evrópudeildinni

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Mynd/Anton
Svo gæti farið að karlalið Vals í knattspyrnu fengi sæti í undankeppni Evrópudeildar 2012-2013. Þrjár efstu þjóðirnar á Háttvísislista UEFA fá í sinn hlut aukasæti í deildinni. Ísland er sem stendur í fjórða sæti listans en miðað verður við stöðuna á listanum 30. apríl næstkomandi.

Fjallað er um málið á heimasíðu KSÍ í dag. Þar kemur fram að aðeins tvö stig skilja að Holland í 3. sæti (8.173 stig) og Ísland í 4. sæti (8.171 stig). Stigasöfnunin byggir á leikjum á vegum UEFA þar sem m.a. er miðað við fjölda spjalda, virðingu við mótherja og dómara auk framkomu forráðamanna og áhorfenda. Eftirlitsmenn á vegum UEFA gefa einkunnir fyrir hvern leik.

Alls leikur Ísland níu leiki fram til 30. apríl sem verða með í útreikningi á listanum. Um er að ræða leiki Íslands í milliriðlum EM hjá U17 og U19 landsliðum kvenna auk U17 landsliði karla.

Hegði allir sér sómasamlega og Ísland nær í 3. sæti listans hlýtur Valur sæti í forkeppni Evrópudeildar sem fram fer næsta sumar. Valur og ÍBV urðu efst og jöfn í háttvísismati eftir Íslandsmótið 2011 en þar sem ÍBV hefur þegar tryggt sér þátttökurétt í keppninni yrði hnossið Valsmanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×