Innlent

Al Thani-málið tekið fyrir í dag

Sigurður Einarsson og Hreiðar Már Sigurðsson er taldir hafa skipulagt Al-Thani fléttuna, en báðir eru ákærðir fyrir umboðssvik og þeir Ólafur og Magnús fyrir hlutdeild í brotum þeirra. Þá eru allir fjórir ákærðir fyrir markaðsmisnotkun.
Sigurður Einarsson og Hreiðar Már Sigurðsson er taldir hafa skipulagt Al-Thani fléttuna, en báðir eru ákærðir fyrir umboðssvik og þeir Ólafur og Magnús fyrir hlutdeild í brotum þeirra. Þá eru allir fjórir ákærðir fyrir markaðsmisnotkun.
Fyrirtaka í Al Thani málinu svokallaða verður fram haldið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Búist er við að Hreiðar Már Sigurðsson, Ólafur Ólafsson og Magnús Guðmundsson mæti fyrir dómara.

Þegar málið var fyrst tekið fyrir í byrjun mars mætti enginn sakborninganna fyrir dóminn og gerði dómari athugasemd við það og krafðist þess að þeir skyldu allir mæta áður en málið yrði tekið fyrir.

Fyrirtöku var því frestað til dagsins í dag en í millitíðinni, þann sextánda mars síðastliðinn mætti Sigurður Einarsson fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings fyrir dóminn og lýsti yfir sakleysi sínu. Lögmenn hinna sakborninganna sögðu að þeir hyggðust allir mæta í dag og taka afstöðu til ákæranna.

Þá átti einnig að fjalla um kröfu verjanda að fá afrit af mynd- og hljóðdiskum með skýrslutökum sakborninga, því hefur hins vegar verið frestað á meðan beðið er niðurstöðu Hæsatréttar um mál sem tekur á sama efni.

Ákæran í málinu beinist gegn fyrrverandi stjórnendum Kaupþings, þeim Hreiðari Má Sigurðssyni, Sigurði Einarssyni og Magnúsi Guðmundssyni auk Ólafs Ólafssonar. Málið snýst um kaup félags í eigu sjeik Al-Thani, bróður emírsins frá Katar, á 5 prósenta hlut í Kaupþingi fyrir rúmlega 25 milljarða króna rétt fyrir bankahrunið. Við rannsókn kom í ljós að kaupin voru að miklu leyti fjármögnuð með lánum frá Kaupþingi og er það mat sérstaks saksónara að um sýndarviðskipti hafi verið að ræða og þar með markaðsmisnotkun í skilningi laga um verðbréfaviðskipti. Þá telur saksóknari að lánveitingarnar vegna viðskiptanna falli undir umboðssvik.

Brotin geta varðað allt að sex ára fangelsi og allt að níu ára fangelsi verði þeir sakfelldir og dómari ákveði að bæta við refsingu allt að helming hennar, en heimild er fyrir slíku í hegningarlögum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×