Innlent

Skemmtiferðaskipin brjóta land Viðeyjar

Viðeyingafélagið sendi margar myndir til stjórnar Faxaflóahafna til að sýna fram á landeyðinguna í Viðey.
Viðeyingafélagið sendi margar myndir til stjórnar Faxaflóahafna til að sýna fram á landeyðinguna í Viðey. Mynd/Viðeyingafélagið
Viðeyingafélagið segir vélarafl sífellt fleiri og stærri skemmtiferðaskipa auk hafnarframkvæmda og dýpkunar Viðeyjarsunds stuðla að niðurbroti eyjunnar. Hafnarstjóri segir bæði land og minjar í hættu. Verkefnið sé að hefta landbrot.

Stjórn Viðeyingafélagsins hefur biðlað til Faxaflóahafna að fyrirbyggja landbrot við suður- og austurströnd Viðeyjar.

Í bréfi Viðeyingafélagsins eru leiddar líkur að því að tíðar komur stórra skemmtiferðaskipa eigi þátt í landbrotinu á Viðey. Íslensku kaupskipin séu smáfleytur í samanburði við hin erlendu risaskip.

„Vélstjórar á kaupskipunum taka undir það álit okkar að vélarkraftur skemmtiferðaskipanna hafi niðurbrotsáhrif á strönd eyjarinnar,“ segir í bréfi stjórnarinnar sem vísar til þess að á kynningarfundi fyrir nokkrum mánuðum hafi Gísli Gíslason hafnarstjóri skýrt frá því að komum skemmtiferðaskipa myndi fjölga verulega á næstu árum. Skipin myndu þar að auki stækka; fara úr því að vera tvö hundruð metrar á lengd í það að vera þrjú hundruð metrar.

„Að gefnu tilefni vakti Örlygur Hálfdanarson máls á landbroti á suður- og austurströnd Viðeyjar sem hefði haldist í hendur við dýpkun Viðeyjarsunds, uppbyggingu Sundahafnar og aukna skipaumferð,“ segir Viðeyingafélagið. Auk landbrotsins er vakin athygli á ástandi gamla hafnarbakkans í Viðey sem sé fyrsta hafskipahöfnin við Faxaflóa.

„Í sjálfu sér verður ekkert fullyrt um ástæður landbrots við Viðey, sem hefur staðið lengi, enda kemur það sjónarmið fram í erindi Viðeyingafélagsins að orsakir landbrots eru fleiri en ein,“ segir Gísli hafnarstjóri. Aðalatriðið sé hins vegar að það sé rétt hjá félaginu að landbrot eigi sér stað á eynni austanverðri auk þess sem minjar sæta ágangi sjávar.

„Verkefnið er því að hefta landbrotið,“ segir Gísli. „Reykjavíkurborg er eigandi eyjunnar, en það er sjálfsagt mál að Faxaflóahafnir í samvinnu við Reykjavíkurborg láti skoða hvernig vinna skuli gegn landbrotinu. Það er fyrsta skrefið í því að koma til móts við ábendingar Viðeyingafélagsins og Örlygs Hálfdánarsonar, sem bent hefur á vandann um langa hríð.“

Viðeyingafélagið kveðst ekki gera lítið úr því að auk vélarafls skipanna þá valdi margir samverkandi þættir álagi á bakka Viðeyjar. „En þar sem ekki virðast vera neinar áætlanir uppi um heildarstrandvörn í Sundunum og þróun landbrotsins talar stöðugt sínu máli finnst okkur að hafnarstjórn ætti að láta náttúruna njóta vafans,“ segir stjórn Viðeyingafélagsins sem er félag brottfluttra Viðeyinga og afkomenda þeirra.

„Brottfluttir Viðeyingar hafa um árabil bent á afleiðingar sem þeir telja að hægt sé að rekja til dýpkunar Viðeyjarsunds og hafnargerðar Reykjavíkurmegin en enga áheyrn hlotið.“

gar@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×