Erlent

Facebook eyðilagði afmælið

BBI skrifar
Stólar brenna í Haren.
Stólar brenna í Haren. Mynd/AFP
16 ára hollensk stelpa átti nokkuð eftirminnilegan afmælisdag í gær þegar óeirðir brutust út í heimabæ hennar, Haren, í norðurhluta Hollands. Stúlkan hafði efnt til afmælisveislu á samskiptamiðlinum Facebook, en boðin rötuðu víðar en til stóð.

Í smábænum Haren búa aðeins um 18 þúsund manns en í gær flykktust á bilinu þrjú til fjögur þúsund manns bæjarins til að halda upp á afmælisveislu stúlkunnar. Stúlkan hafði í sakleysi sínu boðið til afmælisveislu á facebook en gleymt að skrá veisluna sem lokaðan viðburð. Boðin fóru víða á internetinu og í lok síðustu viku höfðu yfir 30 þúsund manns boðað komu sína í afmælið.

Afmælisgestir.Mynd/AFP
Þegar afmælisgestirnir komu til bæjarins sló í brýnu milli þeirra og lögreglunnar á svæðinu. Óeirðir brutust út, 34 voru handteknir, kveikt var í stólum og brotist inn í verslanir. Einhverjir eru meiddir eftir nóttina.

Lögreglan hafði lokað fyrir umferð um götu afmælisbarnsins og auk þess hafði fjölskylda stúlkunnar yfirgefið staðinn þegar gestirnir komu til bæjarins. Lögregluyfirvöld segja að afmælisgestirnir geti búist við ákærum fyrir óspektir. Yfirmenn í Hollandi hafa látið málið til sín taka og sagt að hegðun sem þessi verði ekki liðin.

Í myndbandinu hér að neðan má sjá fjölda gesta hrista skilti og fleira í þeim dúr.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×