Enski boltinn

Man. City í toppsætið eftir jafntefli gegn Stoke

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Crouch fagnar glæsimarki sínu með Jeff Walters.
Crouch fagnar glæsimarki sínu með Jeff Walters. Nordic Photos / Getty Images
Manchester City skrikaði fótur í titilbaráttunni í ensku úrvalsdeildinni en liðið náði aðeins 1-1 jafntefli gegn Stoke á Britannia.

Eftir markalausan og frekar tíðindalítinn fyrri hálfleik kom Peter Crouch heimamönnum yfir með stórbrotnu marki. Hann tók þá boltann á lofti langt fyrir utan teig og setti hann í fallegum boga yfir Joe Hart í markinu.

Gestunum frá Manchester gekk illa að skapa sér opin færi í leiknum en tókst þó að jafna metin stundarfjórðungi fyrir leikslok.

Þá skaut Yaya Toure af löngu færi. Boltinn stefndi beint á Amir Begovic í markinu þegar Ryan Shawcross setti hausinn í boltann og breytti stefnu hans. Begovic hafði hendur á boltanum en náði ekki að verja hann.

Hvorugt liðið var líklegt til þess að tryggja sér sigur í leiknum og jafntefli líklega sanngjörn úrslit.

Manchester City fer í toppsætið á markamun. Liðið hefur þó leikið einum leik meira en grannarnir í United sem taka á móti Fulham á mánudagskvöldið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×