Íslenski boltinn

U-21 spilar 4-4-2 eins og A-liðið

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Eyjólfur Sverrisson kynnir hér hópinn sinn í gær.
Eyjólfur Sverrisson kynnir hér hópinn sinn í gær. fréttablaðið/vilhelm
Samvinna þjálfara A-landsliðs karla og U-21 landsliðsins verður meiri en hingað til. Lars Lagerbäck sagði á blaðamannafundi KSÍ í gær að hann vonaðist eftir góðu samstarfi við bæði Eyjólf Sverrisson, þjálfara U-21 liðsins, sem og Sigurð Ragnar Eyjólfsson þjálfara kvennalandsliðsins.

„Við höfum rætt saman um þessi mál og það hefur allt verið mjög jákvætt," sagði Eyjólfur um samstarf hans og Lagerbäcks fyrstu vikur þess síðarnefnda í starfi.

„Við ætlum að koma íslenska landsliðinu á hærri stall. U-21 liðið er undirbúningur fyrir A-liðið og þar fá strákarnir fyrstu kynni af þessu umhverfi. Við munum samræma okkar aðferðir, allt frá leikskipulagi að agareglum, svo að leikmenn sem koma úr U-21 landsliðinu í A-landsliðið viti að hverju þeir eru að ganga."

Lagerbäck leggur áherslu á að láta lið sín spila samkvæmt 4-4-2 leikkerfinu og Eyjólfur mun því innleiða þá leikaðferð í sitt lið.

„Við ræddum þessi mál ítarlega og auðvitað þarf að haga þessum málum eftir aðstæðum hverju sinni. En ég tel að við getum stillt upp í 4-4-2 enda mikilvægt að þessi tvö lið stilli saman strengi sína á þennan máta," segir Eyjólfur og er óhræddur við að prófa nýja hluti.

„Ég lít á þetta sem tækifæri til að bæta við mig og læra af Lars sem er hokinn af reynslu í þessum bransa. Þetta er mjög spennandi tækifæri fyrir mig."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×