Íslenski boltinn

Lagerbäck: Númer eitt að vinna leiki

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Góðir saman Lars Lagerbäck og Eyjólfur Sverrisson á blaðamannafundinum í gær. fréttablaðið/vilhelm
Góðir saman Lars Lagerbäck og Eyjólfur Sverrisson á blaðamannafundinum í gær. fréttablaðið/vilhelm
Lars Lagerbäck hélt í gær sinn fyrsta blaðamannafund síðan hann var kynntur til sögunnar sem nýr landsliðsþjálfari seint á síðasta ári. Þar tilkynnti hann þá leikmenn sem munu spila í vináttuleikjunum gegn Japan og Svartfjallalandi ytra í lok mánaðarins.

En hann nýtti einnig tækifærið og fór yfir með ítarlegum hætti hvernig hann hyggst byggja upp landsliðið, bæði innan sem utan vallarins.

Lagerbäck tók sér drjúgan tíma til að kynna sín sjónarmið og þær leiðir sem hann ætlar sér að fara til að ná settum markmiðum. Fundinn sátu einnig Heimir Hallgrímsson, aðstoðarþjálfari hans, sem og Eyjólfur Sverrisson, þjálfari U-21 liðsins, og Sigurður Ragnar Eyjólfsson, landsliðsþjálfari kvenna. Greinilegt er að Lagerbäck ætlar sér að nýta þeirra krafta í þágu A-landsliðs karla og uppbyggingu þess á komandi árum.

Sænskur njósnari í teyminuTvö ný andlit eru í starfsteymi Lagerbäck. Roland Andersson verður „njósnari" liðsins – það er að segja sérfræðingur hans um andstæðinga Íslands. Lagerbäck og Andersson hafa unnið lengi saman, bæði í landsliði Svíþjóðar og Nígeríu, en sá fyrrnefndi sagði nauðsynlegt að hafa mann í þessu hlutverki sem hann þekkir vel og treystir. Það reynir á skýr og góð samskipti þeirra, sérstaklega þegar stutt er á milli leikja. Guðmundur Hreiðarsson mun svo sjá um þjálfun markvarða.

„Númer eitt hjá mér er að vinna knattspyrnuleiki," sagði hann um hvað hann teldi mikilvægast í sínu starfi. Það væri eitt að reyna að spila eins og Barcelona eða spænska landsliðið en niðurstaðan væri alltaf sú sama – að vinna leiki. „Besta leiðin til að vinna leiki er að spila vel."

Það eru svo miklu fleiri atriði sem koma að því að ná aðalmarkmiðinu fram, svo sem agi (innan sem utan vallar), virðing, liðsheild og ekki síst hugarfar. Viljinn til að vinna leiki verður að vera til staðar og hugarfarið verður að vera rétt.

„Það þarf auðvitað margt til að ná árangri, svo sem hæfileika, andlegan styrk og svo framvegis. En þetta snýst að stórum hluta um skapgerð og persónur leikmanna," sagði Lagerbäck. „Það þarf mismunandi leikmenn og hver hefur sína hæfileika en mín reynsla sýnir að þeir allra bestu eiga eitt sameiginlegt – allir hafa gríðarlega löngun til að vinna leiki og ná árangri. Það er hægt að temja sér slíkan hugsunarhátt en að mestu leyti er þetta meðfæddur hæfileiki."

Nýta styrkleika leikmannaLagerbäck hnykkir einnig á mikilvægi þess að vera raunsær. „Við verðum að kunna að meta þá hæfileika sem búa í okkar leikmönnum. Góður fótbolti snýst um að geta nýtt leikmennina og hæfileika þeirra á sem bestan máta," sagði Lagerbäck. „Þetta fer einnig saman með bjartsýni og trú á eigin getu."

Hann kom einnig að fleiri þáttum sem snúa að leikaðferð („Ég vil spila 4-4-2"), mikilvægi æfinga og leikmannavali. Fyrir leikina tvo í lok mánaðarins valdi hann tvo átján manna hópa en enginn leikmannanna mun spila báða leikina. Hann fær því tækifæri til að kynnast sem flestum leikmönnum.

Fyrstu fjórir leikir liðsins undir stjórn Lägerbacks verða vináttulandsleikir gegn sterkum liðum á útivelli og segir hann að það sé mikilvægt að láta reyna vel á liðið. „Það er auðvitað ekki gott að tapa en um leið er mikilvægt að liðið taki framförum. Til þess er nauðsynlegt að spila gegn eins sterkum liðum og mögulegt er."

Lagerbäck hefur kynnt sér leiki íslenska liðsins á myndböndum og landsliðsmenn sem hafa spilað síðustu ár. Hann vill þó gefa öllum jafnt tækifæri á að sýna sig og sanna fyrir honum í eigin persónu. „En mestu máli skiptir að bestu leikmennirnir séu í landsliðinu hverju sinni, óháð aldri," ítrekar hann.

Megum ekki við klaufalegum mistökumÍsland hefur ekki náð góðum árangri í síðustu undankeppnum en Lagerbäck segir þó að liðið hafi oft spilað vel og í raun verið óheppið í mörgum leikjum.

„En ef ég á að vera hreinskilinn þá fékk liðið á sig mörg klaufaleg mörk – í raun kjánaleg (e. silly). Liðið má ekki við slíkum mistökum ef það ætlar sér að vinna sterk lið," sagði hann og benti á mörk sem Ísland fékk á sig gegn Portúgal í síðustu undankeppni.

„Liðið spilaði oft vel en stundum þurfti það síðasta upp á – að koma boltanum yfir línuna. Þar komum við aftur að hugarfarinu og sigurviljanum sem getur haft mikið að segja í slíkum aðstæðum. Það er eitthvað sem öll lið þurfa að huga vel að."

Ísland leikur gegn Japan 24. febrúar og Svartfjallalandi fimm dögum síðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×