Enski boltinn

Adebayor lagði upp fjögur og skoraði eitt í 5-0 sigri

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Adeabayor fagnar með félögum sínum í dag.
Adeabayor fagnar með félögum sínum í dag. Nordic Photos / Getty Images
Emmanuel Adeabyor átti stórleik þegar að Tottenham gerði sér lítið fyrir og vann 5-0 sigur á Newcastle í lokaleik dagsins í ensku úrvalsdeildinni.

Adebayor lagði upp fyrstu fjögur mörk leiksins sem komu öll í fyrri hálfleik. Þar voru að verki Benoit Assou-Ekotto, Niko Kranjcar og lánsmaðurinn Louis Saha frá Everton sem skoraði tvö mörk.

Það var svo viðeigandi að Adebayor skoraði sjálfur fimmta og síðasta mark sinna manna í leiknum.

Harry Redknapp, stjóri Tottenham, fagnaði hverju marki gríðarlega enda búinn að eiga erfiða viku. Hann var sýknaður í réttarhöldum af ákærum um skattsvik og hefur síðustu daga einnig verið í sviðsljósi fjölmiðlanna þar sem hann er sterklega orðaður við stöðu landsliðsþjálfara Englands.

Stuðningsmenn Tottenham sungu honum til heiðurs í dag og biðluðu til hans um að vera áfram hjá félaginu. Tottenham er með 53 stig í þriðja sæti deildarinnar, fimm stigum á eftir Manchester United og fjórum á eftir Manchester City sem á leik til góða.

Eins og tölurnar bera með sér var sigur Tottenham gríðarlega öruggur og Newcastle sá aldrei til sólar. Liðið er í sjötta sæti deildarinnar með 42 stig, ellefu stigum á eftir Tottenham.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×