Innlent

Íslensk fornrit leggja grunn að norskri ferðaþjónustu

Kristján Már Unnarsson skrifar
Fornsögum sem Íslendingar færðu í letur fyrir áttahundruð árum er haldið í heiðri í Noregi og þar rekin söfn og menningartengd ferðaþjónusta á grunni íslenska sagnaarfsins, sem Norðmenn telja reyndar vera sinn eigin sagnaarf.

Sögunni víkur til Hálogalands og til Sandness á eyju sem til forna var kölluð Álöst en leiðin út í eyna liggur um hina glæsilegu Hálogalandsbrú. Eins og svo víða í Noregi þá hrópa fornar Íslendingasögur á okkur á Hálogalandi. Á þessum slóðum gerðust atburðir í Egilssögu Skallagrímssonar og á Sandnesi bjó Þórólfur Kveldúlfsson, bróðir Skallagríms.

Hér er risinn sögualdarbær, sem á að minna á höfðingjasetur Þórólfs og konu hans, Sigríðar Sigurðardóttur á Sandnesi. Þar er Þórólfssteininn og á hann letruð orð Kveldúlfs eftir að Haraldur hárfagri hafði drepið son hans. Þarna er einnig minningarsteinn um Eyvind skáldaspilli, höfund elsta ritaða heitis á Íslendingum, sem þáverandi sendiherra Íslands, Eiður Guðnason, afhjúpaði á þjóðhátíðardegi Íslendinga árið 1995.

Allt byggir þetta á fornsögum sem Íslendingar skrifuðu, Egilssögu og Heimskringlu Snorra Sturlusonar. Og svo hátt er sagnarfinum gert hér undir höfði að aðalgatan í bænum Sandnessjöen heitir eftir Þórólfi Kveldúlfssyni.

Sveitarfélagið heitir Alstahaug og oddvitinn, Bård Anders Langö, rifjar upp nöfnin úr fornsögunum sem gerðust á svæðinu. Þarna voru Þórólfur Kveldúlfsson, Sigríður á Sandnesi og Hárekur á Þjóttu, sem Snorri Sturlusson ritaði einnig um.

,,Við erum afar stolt af þúsund ára gamalli arfleifð okkar," segir oddvitinn, enda hefðu þarna gerst mikilvægir atburðir í tengslum við kristnitökuna í Noregi í kringum árið 1000. ,,Ég er stoltur af arleifðinni. Við höfum meðal annars byggt langskála og söfn," segir oddvitinn í Alstahaug.

Spurður hvort fólk viti að það voru Íslendingar sem skrifuðu sögurnar svarar oddvitinn:

,,Fólk hefur fengið þetta með barnaskólalærdómi en hvort það sé alltaf efst í huga að þetta voru Íslendingar veit ég ekki. En við verðum auðvitað að sjá til þess að fólk viti það."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×