Tæknirisinn Apple hefur hótað því að fara í mál við barnakaffihús í Þýskalandi þar sem forsvarsmönnum Apple þóttu vörumerkin vera of lík. Kaffihúsaeigandi í Reykjavík segir vörumerkið hins vegar sláandi líkt sínu. Vörumerkin má sjá í meðfylgjandi myndskeiði.
Barnakaffihúsið Apfelkind var opnað í Bonn í vor. Eigandinn sótti um einkaleyfi á vörumerkinu og leið ekki nema mánuður þar til Apple lét frá sér heyra.
Greint var frá málinu í heimspressunni og vakti athygli Þjóðverja sem þekkir til á Íslandi. Hann setti hann sig síðan í samband við eiganda barnakaffihússins Iðunnareplis við Templarasund.
„Hans áhugi virtist liggja í því hve lík lógóin okkar eru, og því að hún hefði opnað þetta kaffihús á eftir mér og hefði þar af leiðandi stolið hugmyndinni," sagði Tinna Kristjánsdóttir, eigandi Iðunnareplis.
Í framhaldi af þessu fékk Tinna bæði að heyra frá blaðamönnum í Þýskalandi og japanskri sjónvarpsstöð sem voru sannfærðir um að hún ætlaði líka í máli við Apfelkind.
„Þetta er náttúrulega spes. Mér finnst æðislegt að það séu að koma fleiri svona kaffihús," sagði Tinna og ætlar svo sannarlega ekki í mál, en bætir þó við að lógóin séu nær nákvæmlega eins.
Innlent