Enski boltinn

Ancelotti ætlast ekki til þess að Torres skori mörk

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Fernando Torres.
Fernando Torres. Mynd/AFP
Carlo Ancelotti, stjóri Chelsea, segist vera ánægður með frammistöðu Fernando Torres þrátt fyrir að spænski framherjinn hafi ekki náð að skora í fyrstu fjórum leikjum sínum með Chelsea.

Torres var keyptur fyrir 50 milljónir punda frá Liverpool í lok janúar. David Luiz var keyptur á sama tíma og Torres en brasilíski miðvörðurinn opnaði markareikninginn sinn í sigrinum á Manchester United á Brúnni á þriðjudagskvöldið.

„Við þurfum ekki að bera þá saman. Torres náði ekki að skora en ég bið ekki sóknarmennina mína um að skora," sagði Carlo Ancelotti og bætti við:

„Ég bið sóknarmennina mína um að spila fyrir liðið og Torres gerði það mjög vel í þessum leik. Fólk dæmir hann eftir fjölda marka sem hann skorar en ég þarf að skoða aðra þætti í hans leik," sagði Ancelotti.

„Hann hefur unnið vel fyrir liðið, hefur sett pressu á varnarmenn og er búinn að vera mjög duglegur. Það er nóg fyrir mig. Þið verðið að spyrja hann hvort að markaleysið hafi einhver áhrif á hann en ég tel svo ekki vera. Ég er ekki að biðja um að skora mörk," sagði Ancelotti.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×