Erlent

Newt Gingrich sækist eftir tilnefningu Repúblikanaflokksins

Newt Gingrich.
Newt Gingrich.
Repúblikaninn Newt Gingrich tilkynnti á samskiptavefnum Twitter í kvöld að hann ætli sér að sækjast eftir útnefningu Repúblikanaflokksins til þess að bjóða sig fram til forseta Bandaríkjanna. Hann er talinn álitlegasti frambjóðandinn af þeim sem hafa verið nefndir. Talið er að Gingrinch muni tilkynna formlega um framboð sitt á næstu tímum.

Hann er 67 ára gamall og var forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings. Samkvæmt stjórnarskrá er forseti fulltrúadeildarinnar næstur í röðinni á eftir varaforseta Bandaríkjanna til að taka við stöðu Bandaríkjaforseta skyldi hann deyja, segja af sér, eða á einhvern hátt vera leystur frá störfum.

Barack Obama hefur þegar hafið formlega kosningabaráttu sem fram fer á næsta ári.

Repúblikanar lentu í hálfgerðum vandræðum þegar auðkýfingurinn Donald Trump steig á sjónarsviðið og sagðist íhuga að sækjast eftir útnefningu Repúblikanaflokksins. Hann fór mikinn í umdeildu máli í Bandaríkjunum þar sem hann efaðist um að Obama væri raunverulega fæddur í Bandaríkjunum.

Að lokum opinberaði Hvíta húsið fæðingarvottorðið hans þar sem það kom skýrt fram að Obama fæddist á Hawai. Bandarískir miðlar eru í raun hættir að taka hugsanlegt framboð Trump alvarlega.

Þá litu margir hýru auga til David Petraeus, hershöfðingja í Afganistan. En svo virðist sem Obama hafi séð við flokknum því hann réði hann sem yfirmann bandarísku leyniþjónustunnar, CIA, á dögunum.

Þá þykir líklegt að Mitt Romney muni einnig sækjast eftir tilnefningunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×