Innlent

Færði fé til að leyna halla

Fyrrverandi framkvæmdastjóri félagsins færði fé úr læstum styrktarsjóði til að fegra bókhald leikfélagsins. fréttablaðið/vilhelm
Fyrrverandi framkvæmdastjóri félagsins færði fé úr læstum styrktarsjóði til að fegra bókhald leikfélagsins. fréttablaðið/vilhelm
Fyrrverandi framkvæmdastjóri Leikfélags Akureyrar færði rúmar sjö milljónir króna út af Minningarsjóði um Jónsbók, styrktarsjóði LA fyrir listamenn, inn í rekstur félagsins til að leyna rekstrarhallanum.

Einungis stjórn leikfélagsins á að hafa aðgang að sjóðnum, sem stofnaður var til að styrkja listamenn á vegum félagsins, en maðurinn sótti einsamall um undanþágu hjá bankanum og fékk aðgang að reikningnum án vitundar stjórnarinnar. Ekki komst upp um athæfið fyrr en farið var yfir bókhaldið og var honum þá gert að segja upp.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins er nær engin innistæða á sjóðnum í dag, en leikfélagið hefur ákveðið að greiða upphæðina til baka eins fljótt og auðið er.

Eins og fram hefur komið var Maríu Sigurðardóttur, fyrrverandi leikhússtjóra, gert að segja af sér í síðasta mánuði, þegar fjárhagsvandræði félagsins voru komin upp á yfirborðið, en leikfélagið var rekið með 67 milljóna króna tapi á síðasta ári.

Í kjölfar uppsagnar Maríu var ráðinn nýr framkvæmdastjóri. Auglýsti hann stöðu verkefnastjóra lausa til umsóknar fyrr í mánuðinum og sóttu ellefu manns um. Verkefnastjórinn er með 350 þúsund krónur í mánaðarlaun, sem þýðir að LA er að greiða tvenn mánaðarlaun eftir að María hætti sem leikhússtjóri, þar sem hún er enn á starfslokasamningi.

Ekki náðist í Sigrúnu Björk Jakobsdóttur, formann stjórnar LA, í gær.

sunna@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×