Lífið

Signý á topplista hjá Taschen

Signý Kolbeinsóttir og Helga Árnadóttir.
Signý Kolbeinsóttir og Helga Árnadóttir.
Þýski útáfurisinn Taschen gaf í árslok 2009 út bókina Illustration Now! Volume 3 þar sem Signýju Kolbeinsdóttur var skipað í hóp með áhugaverðustu teiknurum heims. Nú hefur Taschen gefið út dagatal sem inniheldur brot af því besta úr bókinni og í því er meðal annars að finna teikningar eftir Signýju.

„Þetta er rosalegur heiður, að vera valin úr hópi þeirra bestu; skemmtilegt áframhald á þessu ævintýri," segir Signý ánægð með að Taschen hafi séð ástæðu til að birta aftur hluta teikninganna sem eru teknar úr myndheimi hennar Tulipop, en hann samanstendur af litríkum fígúrum í ævintýralegri umgjörð.

Óhætt er að segja að Signý sé heldur ekki í amalegum félagsskap í dagatalinu frá Taschen því þar er einnig að finna myndir eftir heimsfræga listamenn á borð við Söru Antoinette Martin, Gary Baseman og Blanquet og Brosmind svo fáeinir séu nefndir til sögunnar.

Dagatalið er enn ein rósin í hnappagat Tulipop, sem er hönnunarfyrirtæki í eigu Signýjar og Helgu Árnadóttur. En nýverið bættust YoYa Mart og hinar þekktu Pylones-verslanir í New York í hóp söluaðila þess. Þá hefur Tulipop landað samningi við stóra dreifingaraðila á Englandi. Fyrir eru vörur fyrirtækisins seldar í á fjórða tug verslana á Íslandi, í Svíþjóð og Bandaríkjunum.

„Eiginlega er bara allt að gerast hjá okkur um þessar mundir, þessir samningar sem eru ákveðinn gæðastimpill fyrir okkur og munu opna ýmsar dyr, Taschen-dagatalið, blaðaumfjallanir og svo ný vörulína sem er unnin upp úr myndheimi Tulipop. Fyrstu eintök voru einmitt að koma í hús og fara í verslanir í byrjun desember," segir Signý.

roald@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.